Þú ert hér

Fá sendar tilkynningar Loka

Með því að skrá netfang þitt hér getur þú fengið sendar á tölvupósti nýjustu greinar og kveðjur þegar þær eru skráðar á viðkomandi.

Einar Laverne Lee

f.d. 18.3.1971 - d.d. 4.1.2012

Einar Laverne Lee fæddist í Reykjavík 18. mars 1971. Hann lést á heimilinu sínu 4. janúar 2012. Einar var sonur Helgu Soffíu Gísladóttur, f. 11. desember 1948, og Johns M. Lees jr., f. 19. ágúst 1949. Helga og John giftust 16. maí 1970. Þau slitu samvistir. Hinn 16. desember 1973 giftist Helga Soffía uppeldisföður Einars, Elís Heiðari Ragnarssyni, f. 9. júlí 1950. Einar átti fimm systkini: 1) Rakel Theódóra Heiðarsdóttir, f. 7. apríl 1974, gift Jón Bjarna Hrólfssyni og börn þeirra eru Lóa Linda og Ástþór Andri. 2) Edda Guðrún Heiðarsdóttir, f. 22. ágúst 1976, gift Stefáni Ragnari Magnússyni og börn þeirra eru Katla Marín og Elís Heiðar. 3) Heiðar Andri Heiðarsson, f. 3. maí 1979, dóttir hans er Helga Sóley. 4) Kerri Lynn Lee Farmer, f. 10. mars 1975, gift Kimble Farmer og börn þeirra eru Kaden Farmer og Kayla Farmer. 5) Michael Francis Lee, f. 29.desember 1979. Einar ólst upp í Breiðholti og bjó alla tíð í Reykjavík, síðustu árin í húsi Blindrafélagsins í Hamrahlíð 17. Einar giftist Rakel Þóru Finnbogadóttur 1994, leiðir þeirra skildi. Árið 1997 kynnist Einar Jóhönnu Steinunni Jóhannesdóttur og bjuggu þau saman til ársins 2003, leiðir þeirra skildi. Einar fór í Iðnskólann í Reykjavík og lærði þar bifvélavirkjun. Hann var duglegur í námi og starfi og byrjaði ungur að vinna. Einar vann sem sendibílstjóri og ýmis verslunarstörf en lét af þeim störfum sökum veikinda árið 2000. Síðustu árin starfaði hann hjá Blindrabókasafninu, en síðasta árið og til dauðadags á vinnustofu Blindrafélagsins. Útför Einars fer fram í dag, fimmtudaginn 12. janúar 2012, í Fossvogskirkju og hefst athöfnin klukkan 13.

Minningargreinar

12.1.2012 14:03:09

Lesa grein
Elsku hjartans vinur. Hvað skal segja?? Sættir maður sig við að svona sé lífið? Ég held að maður geri það aldrei en maður kannski lærir að lifa með því að heyra ekki í þér og geta ekki spjallað um okkar sameiginlega áhugamál, okkar dýpstu pælingar, vandamál heimsins og öllu því sem var að gerast í lífi okkar þá stundina. Við höfum þekkst síðan við vorum unglingar og höfum haldið sambandi af og til síðan. Minningarnar um góðu stundirnar lifa áfram, öll árin, öll ævintýrin, öll prakkarastrikin, öll djömmin, allir kaffibollarnir á Cafe Blue og allt sem við brölluðum fylgja mér þar til við hittumst á ný. Ég man sérstaklega eftir einu spjallinu þegar ég var nýbúin að missa vinnuna mína og var með allt á hornum mér og var að kvarta og kveina hvað mér fannst lífið erfitt og þú fórst að hlæja að mér og ég snögg reiddist og spurði þig hvað í andsk. væri svona fyndið. Þú svaraðir mér því að þegar allir væru orðnir fífl í kringum mann ætti maður að líta í spegil og ath. hvort að maður væri ekki sjálfur fíflið. Man þetta eins og þetta hafi gerst í gær því ég var svo hrikalega móðguð útí þig í nokkra daga en svo rjátlaði nú af mér pirringurinn og ég sá að þetta var SVO rétt hjá þér. Þegar ég hugsa til þín koma tár í augun en bros á varirnar. Þú varst ótrúlegur karakter og áttir alltaf auðvelt með að fá mig til að brosa. Tilsvörin þín alltaf frábær. Eitt sumarið sótti ég þig niður í Hamrahlíð og legg bílnum, stuttu seinna kemur þú út og stendur heillengi eins og álka ég skrúfa niður rúðuna og æpi hvað er þetta maður ætlar þú með þú komst labbandi að bílnum settist inn leist í áttina til mín og sagðir hvað er að þér kjelling manstu ekki að ég er blindur og sé ekki hvaða bíll þetta er? Mikið hlógum við. Einu sinni sem oftar fórum við í Kringluna og þú vildir halda í mig og sleppa stafnum. Ég hélt að það væri ekki mikið mál fyrr en ég var búin að skella þér utan í skilti þegar ég reyndi að komast framhjá eldri konu, ég fór alveg í kleinu og bað þig sífellt afsökunar og var komin með þig hálfa leið inn í Karen Millen þegar þú sagðir allt í einu Begga mín er ég blindur eða þú, rúllustiginn er þarna . Ég skammaðist mín í svona 5 mínútur og svo hlógum við þvílíkt að þessu. En svona var þetta mér fannst þú aldrei vera blindur því þegar við kynntumst varstu að flestu leyti eins og við hin unglingarnir nema þú sprautaðir þig með insúlíni endrum og eins. Ég hugsa til þess með trega að þú hafir ekki getað komið í mat þessi skipti sem ég bauð þér í haust, alltaf komu upp einhver veikindi hjá okkur til skiptis. Núna í byrjun desember þá ætlaðir þú að koma og ég keypti í matinn og Pepsi Max handa þér – þú komst ekki vegna þess hve slappur þú varðst þennan dag. Nú sit ég hér og drekk Pepsi Maxið þitt, brosi og skála fyrir þér heiðursmaður. Ég veit líka innst inni í hjarta mínu að þú varst orðinn einmana og dálítið innilokaður vegna veikinda þinna síðustu mánuðina. Einhvernvegin er mannskepnan þannig að við forðumst allt sem erfitt er og það á við um mig, þig og alla aðra. Þessar setningar sem teknar eru af blogginu þínu stinga mann í hjartað. Ég gæti líka hreinlega látist í svefni vegna hjartans o.fl. og enginn fundið mig í nokkra daga. Sú tilfinning sem sló mig þarna var hræðsla við svona atburð og einnig mikill einmanaleiki, vitandi að líf mitt væri í alvöru þannig að stundum kemur enginn hingað í einhverja daga og stundum hringir síminn ekki í viku. Vá hvað líf mitt varð allt í einni setningu að sorglegum leikþætti!! Ég held Einar minn að engu okkar hafi fundist líf þitt sorglegur leikþáttur heldur þáttur í því að gera líf okkar hinna ríkt og auðugt af vináttu þinni – við kunnum bara ekki alltaf að sýna þér það. Mér þykir svo vænt um kaffibollaspjallið okkar sem við áttum síðastliðinn nóvember – um dauðann og lífið, mér leið skringilega í marga daga á eftir, það sem ég skildi ekki alveg þá skil ég núna – við áttum alveg eins von á að þú færir aldrei til Svíþjóðar í nýrnaskiptin – við vildum bara ekki tala um það.
Elsku hjartans vinur minn innilegar þakkir fyrir allt sem þú gafst mér. Ég sendi fjölskyldu þinni mínar innilegustu samúðarkveðjur. Ég veit að þú ert á betri stað verkjalaus og slakur.
Þín vinkona,
Begga Eiðs.

Dánartilkynning Lesa grein

Einar Laverne Lee fæddist í Reykjavík 18. mars 1971. Hann lést á heimilinu sínu 4. janúar 2012. Einar var sonur Helgu Soffíu Gísladóttur, f. 11. desember 1948, og Johns M. Lees jr., f. 19. ágúst 1949. Helga og John giftust 16. maí 1970.
Byggir á Summit vefstýrikerfinu frá IGM ehf. www.igm.is