Þú ert hér

Fá sendar tilkynningar Loka

Með því að skrá netfang þitt hér getur þú fengið sendar á tölvupósti nýjustu greinar og kveðjur þegar þær eru skráðar á viðkomandi.

Anna Guðmundsdóttir

f.d. 6.2.1930 - d.d. 24.5.2018
Anna fæddist á Stóru-Borg í Víðidal 6. febrúar 1930. Hún lést á líknardeild Landspítalans 24. maí 2018.
Foreldrar hennar voru Ólöf Helgadóttir (1898-1945) og Guðmundur Jónsson (1892-1936) á Stóru-Borg.
Systkini Önnu eru; Njáll (1920-1998), tvíburastúlkur (1921-1921), Jóhann Helgi (1922-1988), Guðrún Jóhanna f. 1924, Auður f. 1926, Ólafur Ingimundur (1928-2005), Ásborg (1931-1948), Reynir Líndal (1932-1984), Þórður f. 1934, Rannveig Sigríður f. 1935, Guðmundur (1936-2001). Samfeðra Hjörtur Frímann (1918-2009) og Björn Tryggvi (1918-1943). Móðir þeirra var Helga Teodóra Gísladóttir (1875-1923).
Anna giftist Böðvari Pétri Indriðasyni f. 21. júní 1929, d. 10. janúar 1982, frá Gilá í Vatnsdal 22. nóvember 1952. Þau eignuðust fjögur börn: 1) Þórunn Birna f. 1952, gift Huga Helgasyni f. 1941. Dætur þeirra; Anna Hugadóttir f. 1980, gift Þórarni Arnari Ólafssyni f. 1980. Synir þeirra Ólafur f. 2010 og Sigurður Hugi f. 2016. Margrét f. 1982, sambýlismaður Tryggvi Gunnarsson f. 1980; 2) Kristín f. 1954, gift Valgeiri Jónassyni f. 1950. Börn þeirra Guðmundur Axel f. 1979, Sóley f. 1984, sambýlismaður Eiður Ottó Bjarnason f. 1984. Dætur þeirra Kristín Björt f. 2012 og Embla Ýr f. 2016. Jónas f. 1986, sambýliskona Elsa María Gunnarsdóttir f. 1991. Dætur þeirra Sunna Björk f. 2015 og Erla Sól f. 2017; 3) Guðmundur (1962-1973); 4) Ólöf Ása f. 1966, giftist Þorgrími Péturssyni f. 1963. Synir þeirra; Böðvar Pétur f. 1994 og Sölvi f. 1997. Þau skildu.
Anna fór tveggja ára í fóstur að Miðhópi í Víðidal til hjónanna Þórunnar Björnsdóttur og Björns Þorsteinssonar og ólst þar upp til fullorðinsára ásamt börnum þeirra, Margréti og Birni og öðrum fósturbörnum sem áttu þar skjól um lengri eða skemmri tíma.
Anna lauk landsprófi 1950 frá Reykjaskóla í Hrútafirði og var farkennari í Vatnsdal veturinn á eftir. Anna og Böðvar stofnuðu heimili á Ásvallagötu 16 og leigðu þar íbúð. Árið 1973 misstu hjónin einkason sinn, Guðmund, sem lést eftir langvarandi veikindi. Anna starfaði lengst af á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Grund, frá 1960 við ummönnun og lét af störfum 1997 en hélt alltaf góðu sambandi við sinn gamla vinnustað og mætti þar ætíð mikilli hlýju og velvild. Anna og Böðvar fluttu í eigin íbúð að Hofsvallagötu 23 árið 1980. Húsnæðið var ekki stórt og efnin ekki mikil en þau voru mjög gestrisin og varla leið svo dagur að ekki bæri gest að garði. Eftir að Böðvar lést 1982, eftir talsverð veikindi, helgaði Anna sig uppeldi yngstu dótturinnar og naut samvista við barnabörnin sem voru óðum að koma í heiminn. Seinna fæddust langömmubörnin. Anna var mikil prjónakona og nutu afkomendur hennar þess í ríkum mæli. Anna dvaldi á sjúkrastofnunum frá desember sl. og síðustu tvo mánuðina á Grund, þangað sem hún kom þrotin að kröftum.
Anna verður jarðsungin frá Fossvogskirkju þann 11. júní kl. 13.

Minningargreinar

11.6.2018 22:35:19

Lesa grein
"Hringdu nú samt á undan þér svo ég sé örugglega heima þegar þú kemur", sagði amma í hvert einasta skipti sem ég sagðist ætla að kíkja á hana í heimsókn. Þessi setning lýsir henni einstaklega vel því hún var kona sem mat ferðafrelsi sitt mikils og ferðaðist um allan bæ gangandi og í strætó, í ýmsum erindagjörðum, hvort sem það var garnleiðangur, heimsóknir eða ferð upp í mjódd eftir besta súra hvalbitanum í fiskbúðinni. Hún gerði nefnilega vel við sig í mat sagði hún, konan sem mundi tímana tvenna, konan sem sagði mér frá þeim árum þegar vísitölutrygging launa var afnumin og verðtryggðu lánin sliguðu fjölskylduna, þegar vöruskortur var svo mikill í landinu að krakkar í Vesturbænum voru sendir á stúfana til að finna naglaspýtur sem voru svo naglhreinsaðar, naglarnir réttir og notaðir í viðbyggingu Grundar. Konan sem hringdi í alþingismenn og sagði þeim til syndanna þegar þeir sögðu að fólk gæti léttilega komist af með 1000 krónur á dag, það gæti bara gist í tjaldi, konan sem vann og vann og vann, konan sem starfaði á Grund fram að eftirlaunum, konan sem setti aðra í fyrsta sæti og hætti aldrei að berjast, konan sem náði að kjósa utan kjörfundar áður en hún kvaddi.

Ég er þakklát ömmu fyrir svo margt. Hún kenndi mér þrautsegju og að gefast ekki upp. Ég mun ávallt minnast hennar sem sterkrar og lífsglaðrar konu sem hlakkaði til að komast aftur á Grund, sinn gamla vinnustað. Nú er hún farin en lifir áfram í okkur afkomendunum um ókomna tíð.
Margrét

Dánartilkynning Lesa grein

Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma,

Anna Guðmundsdóttir

frá Miðhópi,
Hofsvallagötu 23, Reykjavík,
sem lést á líknardeild Landspítalans 24. maí sl. verður jarðsungin frá Fossvogskirkju í Reykjavík mánudaginn 11. júní nk. kl. 13.

Þórunn Birna Böðvarsdóttir - Hugi Helgason
Kristín Böðvarsdóttir - Valgeir Jónasson
Ólöf Ása Böðvarsdóttir
Barnabörn og langömmubörn.
Byggir á Summit vefstýrikerfinu frá IGM ehf. www.igm.is