Þú ert hér

Fá sendar tilkynningar Loka

Með því að skrá netfang þitt hér getur þú fengið sendar á tölvupósti nýjustu greinar og kveðjur þegar þær eru skráðar á viðkomandi.

Sigrún Pálína Ingvarsdóttir

f.d. 8.11.1955 - d.d. 2.4.2019
Elsku eiginkona, móðir, stjúpmóðir, amma og tengdamóðir okkar, Sigrún Pálína Ingvarsdóttir lést á Frederikssund spítala í Danmörku 2.apríl 2019.
Útför hennar mun fara fram miðvikudaginn 24. apríl 2019 kl. 15 í Vídalínskirkju í Garðabæ.
Kær kveðja
Alfred-Wolfgang Gunnarsson
Elísabet Ósk Sigurðardóttir
Bjarki Blöndal
Sólveig Hrönn Sigurðardóttir
Árni Reynir Alfredsson
Guðrún Lára Alfredsdóttir
Barnabörn og tengdabörn

Blóm eru vinsamlegast afþökkuð en við bendum á styrktarreikning 111183-2959
0114 - 05 - 062999 til styrktar við útför Pálu og ferðakostnað fjölskyldunnar til að virða ósk hennar að hvíla að hluta til í sinni móðurjörð á Íslandi.
Einnig er hægt að styrkja Stígamót í hennar nafni.

Minningargreinar

18.4.2019 21:57:46

Lesa grein
Ég kynntist þér fyrst fyrir rétt tæpum þrjátíu árum þegar við Elísabet kynnumst.
Var oft gestur á heimilinu ykkar en kynntist þér ekki raunverulega fyrr en nokkrum árum síðar. Þá vorum við Elísabet í kringum tvítugt og þið öll flutt til Danmerkur. Ég kom eitt sumar að vinna og bjó hjá ykkur Alla, Elísabet, Aroni og Sólveigu. Það var virkilega skemmtilegur tími sem ég hugsa oft til. Mér var strax tekið sem einni af fjölskyldunni og hef síðan kallað ykkur Alla, mömmu og pabba. Það var alltaf stutt í húmorinn og gleðina. Mér er mjög minnisstætt þegar það flæddi inn um kjallarann á húsinu og við fórum öll niður í kjallara með fötur og fórum að ausa út úr kjallaranum.
Mér þótti mjög vænt um að vera boðið í bæði fimmtugs- og sextugsafmælið þitt og mætti að sjálfsögðu.
Þú greindist svo með krabbamein og þetta leit ekki vel út í fyrstu. Þú hringdir í mig þegar þú fékkst fyrstu góðu fréttirnar, krabbinn var næstum því farinn. Ég var að keyra og svaraði símanum. Þegar ég lagði á, sat ég á ljósunum við Grensásveg og grét af gleði. Ég var alltaf svo viss um að þú myndir ná þér. Ég var allt of lengi á leiðinni í heimsókn. Það er því miður of seint en ég náði að hitta þig í fertugsafmælinu hennar Elísabetar. Ég mun alltaf muna þig sem hlýrri, dásamlegri manneskju sem var alltaf eitthvað að fíflast og hlæja með restinni af fjölskyldunni. Ég sakna þín elsku “mamma Pála”.

Þórunn Tryggvadóttir

18.4.2019 14:26:59

Lesa grein
Elsku hjartans Pála mín.

Dagurinn sem ég hef kvíðið svo mikið fyrir er kominn, þú kvaddir í morgun. Hugurinn reikar 37 ár aftur, til þess tíma er við hittumst fyrst á Skálatúni. Ég bara 17 ára krakki þú 26 ára gift og tveggja barna móðir. Kynni okkar hófust þegar við unnum saman á Skálatúni og ég passaði börnin þín tvö sem þá voru fædd, Elísabetu og Bjarka. Fljótlega hætti ég að vera barnapían þín og varð vinkona þín, aldrei þvældist aldursmunurinn fyrir okkur. Í gegnum árin sem liðin eru höfum við skapað dýrmætar minningar,hafsjór af minningum rennur í gegnum huga mér nú þegar ég sit og minnist þín, aðeins fáum klukkutímum eftir andlát þitt. Við gengum í gegnum dimma dali saman og yfir fjallstoppa þar sem sólin glitraði á hverjum steini og hláturinn ómaði á milli klettaveggja. Þú varst ein af þeim fáu sem ég elskaði svo mikið að ég var ávallt tilbúin til að fara auka mílu fyrir þig, ávallt tilbúin að leggja mitt eigið til hliðar til að styðja þig og hjálpa. Í svo mörg ár varst þú fyrirmyndin mín, svo sterk, svo hugrökk, kærleiksrík og full af réttlætiskennd. Ég fylgdist með börnunum þínum vaxa úr grasi og elskaði þau eins og mín eigin. Þú fylgdist með mínum börnum og dætur okkar, Jóhanna mín og Sólveig þín voru sem systur, enda stutt á milli þeirra. Þú kenndir mér svo margt, takk elsku Pála fyrir það.
Það var erfitt þegar þú fluttir til Danmerkur, svo erfitt að fyrstu árin voru dagarnir allir gráir og kaldir eins og sólin væri að eilífu horfin. Þá notuðum við símann, drukkum saman morgunkaffið og spjölluðum, sitthvoru megin við hafið, dag eftir dag. Hlógum og grétum saman, deildum öllu með hvor annari, oftar var þó hlegið. Í minningunni eru dýrmætustu stundirnar þær þegar ég gat heimsótt þig til Danmerkur, stundirnar í pottinum þínum, stundirnar með stelpunum þinum, göngutúrarnir með Sallý og Bettý, þegar við vorum fjórar saman og bara tvær gátu talað. Dýrmætar minningar sem eru vel geymdar í hjarta mér.
Einhvern vegin er það þannig að engin getur sært meira en sá sem maður treystir og elskar mest. Sá dagur kom að okkur sinnaðist, við spordrekarnir gátum ekki leyst úr vandanum. Það er sárara en allt sem sárt getur verið.

Núna er tíminn útrunninn. Núna er þetta svo léttvægt. Núna er ekki hægt að tala saman, fyrirgefa eða fá fyrirgefningu. Núna er of seint. Ég vil bara kveðja þig með þeim orðum sem ég sagði við þig síðast þegar við hittumst, Pála ég elska þig og mun ávallt elska þig, þú ert systirin sem ég aldrei eignaðist.
Þín Ásta

17.4.2019 23:02:34

Lesa grein
Það er stórskrítið að sitja hér og skrifa minningargrein um þig stærsta ástin mín. Það er óraunverulegt og ósanngjarnt, en einhvern veginn er það það sem við áttum von á, en að sjálfsögðu vonuðum við alltaf að þú myndir sigrast á þessum sjúkdómi. En það vita allir að það er ekki auðvelt að sitja hér heima án þín og skrifa þessi síðustu orð til þín ástin mín.
Leiðir okkar lágu fyrst saman í Templarahöllinni Reykjavík, þar sem við dönsuðum vals, polka og hvað þeir nú heita allir þessir gömlu dansar. Aldrei varð það að við tvö dönsuðum saman þá, þú varst ljóshærð falleg stelpa, ég var rauðhærður strákur með krullur og freknur, og þorði ekki að bjóða þér upp í dans. Þú sagðir við mig eftir að við byrjuðum líf okkar saman, að þú skildir aldrei af hverju ég bauð þér ekki upp í dans, því þú sást að ég gat alveg dansað.
Árin liðu og leiðir okkar skildu, þú stofnaðir fjölskyldu og eignaðist þrjú yndisleg börn, ég stofnaði mína fjölskyldu og eignaðist tvö yndisleg börn, við lendum bæði í skilnaði við maka okkar, og árin liðu. Haustkvöld eitt 1993 í stórri afmælisveislu á stað sem hét Amma Lú sást þú mig síðan í fjarlægð þegar Milljónamæringarnir byrjuðu að spila Vínarvals, og þar sem þú vissir að ég kunni að dansa, þá tókst þú strikið yfir til mín, og varst ekkert að bjóða mér upp í dans, sagðir einfaldlega: Nú kemur þú og dansar vals við mig.
Þegar ég sé hver daman er, var ekki hikað, við fórum út á gólfið og byrjuðum að snúast, gólfið var yfirfullt að fólki, en þegar fólk tók eftir að þarna var par sem gat dansað Vínarvalsinn eins og átti að gera það, þá flutti fólkið sig af gólfinu og klappaði í takt við tónlistina og leyfði okur að eiga gólfið.
Við höfðum aldrei dansað saman áður, en það var eins og við hefðum ekki gert annað allt okkar líf.
Þarna skilja svo leiðir okkar aftur, en hugsanirnar voru margar, og föstudag einn í desember hringir þú til mín í verslunina mína og kynnir þig, og við ræðum aðeins saman um Vínarvalsinn á Ömmu Lú, og þú spyrð mig síðan hvort ég vilji ekki hitta þig yfir kaffibolla á Café Paris, annað hvort það kvöld eða kvöldið eftir, þú gafst mér í raun ekki möguleika á að segja nei.
Fyrir mig sem gullsmið þá var síðasti föstudagur fyrir jól og laugardagurinn ekki bestu dagarnir til að fara á kaffihús, svo ég valdi föstudaginn.
Þarna hófst samband okkar, við eigum okkar fyrsta koss rétt fyrir jól 1993, og þessi 26 ár með þér, hafa verið einhver hamingjuríkustu ár ævi minnar.
Við vorum alltaf sammála um að allt í lífinu hefur sinn tilgang, við ræddum oft um hvað það hefði verið yndislegt ef við hefðum fundið hvort annað fyrr, átt okkar líf saman og okkar börn saman, en vissum líka að þá hefðum við ekki átt þau yndislegu börn og barnabörn sem við eigum nú.
Við vissum líka að þá hefðir þú ekki lent í þeim hremmingum sem þú varðst fyrir sem ung stúlka af völdum kirkjunnar manns, og misgjörðir hans gagnvart þér, hefðu sennilega aldrei komið upp á yfirborðið.
Við ræddum um að það var Guðs vilji á einhvern óskiljalegan hátt að þú, konan sem aldrei lést neinn vaða yfir þig með óréttlæti eða yfirgangssemi, skyldir lenda í þessum hremmingum eftir að hafa verið í viðtali hjá prestinum sem hafði gift þig og manninn þinn þegar þið áttuð í hjónabandserfiðleikum.
Mörgum árum seinna, þegar við byrjum líf okkar saman 1993, kemur í ljós að þessi kirkjunnar maður ætlar að bjóða sig fram til æðsta embættis innan kirkjunnar, embættis biskups yfir Íslandi, og þú segir mér sögu þína, hverju þú hafir lent í af hálfu þessa manns, og hvort ég muni standa við hlið þér og styðja þig ef það skyldi opinberast. Ég svaraði þér án þess að hugsa, að það myndi ég að sjálfsögðu gera, og restina af þeirri sögu þekkir þjóðin.
Líf okkar saman hefur boðið upp á margar góðar og eftirminnilegar stundir og einnig erfiða tíma, þar sem við höfum þurft að takast á við veikindi og erfiðleika. Þú stóðst alltaf sem klettur á bak við þá sem lentu í veikindum eða erfiðleikum, bæði innan og utan fjölskyldunnar.
Þegar Sólveig dóttir þín varð hjartveik, og var ekki hugað líf fyrstu dagana, þá gekkst þú í móðurhlutverkið fyrir börnin hennar, og að fylgjast með þér hvernig þú stóðst sem klettur við hlið hennar og barnanna og hans Theis í þessum veikindum, þá fór ekki fram hjá neinum sem kom að þessum veikindum hvaða persónu þú hafðir að geyma. Sama var með Bjarka son þinn er hann greindist með sykursýki á háu stigi, þar var það sama upp á teningnum, þú fórnaðir þér fyrir þitt fólk, og aðra.
Í gegnum starf þitt hér í Danmörku hjálpaðir þú háum sem lágum við að takast á við vandamál sín, þú gerðir engan greinarmun á hvaðan fólk kom úr þjóðfélaginu, þú sagðir mér eitt sinn að til þín hefði komið skjólstæðingur sem átti í erfiðleikum með líf sitt, þú tókst á móti honum sem hverjum öðrum dönskum manni, maðurinn kynnir sig og þú kynnir þig, hann spyr þig síðan svolítið undrandi, hvort þú vitir ekki hver hann sé, þú segist ekki vita það, og hann varð svo glaður að hann gat komið og rætt við persónu án þess að vera þetta andlit sem allir þekktu, og vissu ekki alveg hvernig ætti að ræða við hann. Hann hefur síðan sagt hvað þú varst frábær og yndisleg kona, og hvað þú varst næm á að finna hvar skóinn kreppti og hvað hann gæti gert betra til að verða sá maður sem hann er í dag.
Það var alveg sama hvað vandamálið eða erfiðleikarnir voru, þú byrjaðir aldrei að leggjast í neikvæðni eða uppgjöf, þú leist alltaf á hvernig væri hægt að leysa vandann, og gekkst síðan í að gera það.
Í starfi þínu á Íslandi sem þroskaþjálfi var greinilegt hvílíka manngæsku þú hafðir til að bera, að sjá hvernig þú umgekkst t.d. fólk sem hafði Downs heilkenni, hvernig þú sagðir alltaf hvað það fólk var yndislegt, hvað þau voru full af ást og sögðu hlutina eins og þeir voru, þar kenndir þú mér mikið með fáum orðum.
Eitt sinn 1994 eða 1995 varstu beðin um að taka að þér að breyta starfsháttum á einu af þeim heimilum þar sem fólk með Downs heilkenni bjó, þú notaðir fyrstu dagana til að sjá hvernig starfsfólkið kom fram við heimilisfólkið, og þar sástu strax hluti sem þér fannst engan veginn fólki sæmandi.
Heimilisfólkið var rekið í sturtur, starfsfólkið klæddist stígvélum, gúmmíhönskum og gúmmísvuntum, og síðan var heimilisfólkið skrúbbað og þvegið eins og gripir í gripahúsi.
Einhverjir hefðu sennilega rekið þetta starfsfólk, en þú vissir að það myndi engu breyta, svo þú baðst starfsfólkið um að klæðast baðfatnaði, og þú fórst og klæddist stígvélum, gúmmíhönskum og gúmmísvuntu, og spurðir síðan starfsfólkið hvernig því liði að sjá þig standa svona fyrir framan þau, tilbúin í stórþvott.
Einnig fannst þér undarlegt að heimilisfólkið hafði ekki lykla að herbergjum sínum, það var læst inni, eins og fangar.
Þessum hlutum, og öðrum, fékkst þú breytt, þannig að fólk sem minna mátti sín fékk betri lífsskilyrði.
Sama var þegar þú greindist með krabbameinið, þá gekkstu staðföst inn í það að finna út hvaða möguleika aðra þú hafðir fyrir utan lyfjameðferðina til að verða heilbrigð aftur, og allt virtist ganga vel þar til í vetur að það fór að ganga verr. Það að upplifa hvernig þú gekkst í gegnum veikindi þín með æðruleysi, og kenndir okkur öllum sem eftir sitjum, hvernig við eigum að halda áfram lífi okkar, og lifa því án þín, hefur verið ómetanleg hjálp í að komast í gegnum þetta. Þú sagðir við mig einn dag þegar við ræddum framtíðina án þín, að þinn kyndill myndi bara slokkna og að þinni vist hér væri lokið og að þú þyrftir ekki að hafa meiri áhyggjur, eða meiri verki, en við þyrftum að lifa áfram og læra að lifa við söknuðinn. Það lýsti þér svo vel, að þú hugsaðir ekki um þig, heldur um okkur sem eftir lifa.
Þú sagðir einnig, sem mér þótti svolítið undarlegt fyrst þegar ég heyrði það, að ef maður gæti séð eitthvað jákvætt við þennan sjúkdóm, þá hefði maður tíma til að fara yfir líf sitt og geta sagt það sem hafði verið ósagt, og hefði möguleika á að kveðja og þakka fyrir sig, og óska öllum hins besta.
Við fengum sagt við hvort annað það sem við höfðum ekki sagt, og náðum að kveðja hvort annað.
Að fylgjast með þér í veikindunum síðustu vikurnar, og sjá hvað þér leið illa, og vita að það væri ekkert hægt að gera fyrir þig, það var sárara og erfiðara en allt annað sem ég hef reynt í lífi mínu, að sjá hvernig sjúkdómurinn tók lífsneistann frá þér og hvernig lífið fjaraði út, og vona að þú fengir að deyja svo þú þyrftir ekki að þjást meira, það var erfiðara en allt sem erfitt er.
Það hafa verið forréttindi að fá að eiga þig og eiga þessi ár með þér ástin mín, allt það sem þú hefur kennt mér um manngæsku, framkomu við fjölskyldu, vini og ókunnuga, hvernig þú fékkst mig til að breyta lífi mínu og sýndir mér hvernig maður á að taka á móti ást og endurgjalda ástina, og hvernig ég gat elskað sjálfan mig, svo ég gæti elskað aðra.
Ó, elsku Pála mín, núna veit ég ekki hvernig ég á að geta lifað án þín, en ég mun eflaust læra það með tímanum og læra að lifa glaður með þær yndislegu minningar sem ég á um þig og allt sem við höfum upplifað saman.
Við sjáumst aftur þegar minn kyndill slokknar, þá dönsum við Vínarvalsinn okkar aftur, og aftur, og aftur.
Guð blessi þig og varðveiti þig ástin mín.

Þinn ástkær eiginmaður,
Alfred-Wolfgang Gunnarsson

17.4.2019 22:55:14

Lesa grein
Ég kynntist henni Pálu gegnum konu mína, Guðrúnu Öldu en þær voru æskuvinkonur. Þá var Pála gift þeim góða dreng, Sigurði heitnum Blöndal, og var mikil vinátta milli okkar. Svo mikil að þau Pála og Siggi voru svaramenn þegar við Guðrún Alda giftum okkur 1984.

Ekki voru vináttuböndin síðri sem við bundumst sómamanninum honum Alla, Alfred-Wolfgang Gunnarssyni síðari manni Pálu. Vorum við Guðrún Alda þannig svaramenn þegar þau giftu sig 2008 við ógleymanlega athöfn.

Sömuleiðis minnumst við ótal margra skemmtilegra stunda með þeim, bæði á Íslandi og í Danmörku gegnum árin. Það var iðulega kátt á hjalla þegar við hittumst, enda þau Pála og Alli sérstaklega lífsglatt, skemmtilegt og viðræðugott fólk. Eru þessar minningar nú einstaklega dýrmætar þegar hún Pála hefur kvatt okkur allt of snemma.

Pála var einstök manneskja á margan hátt. Það sem fyrst og fremst einkenndi hana var þessi óendanlegi kærleikur og væntumþykja til alls þess sem lífsanda dregur, jafnt mannfólks sem dýra. Réttlætiskennd hennar var sömuleiðis viðbrugðið og samkennd hennar með þeim sem minna mega sín einlæg og sönn.

Eitt langar mig að nefna sem mér finnst lýsa Pálu einstaklega vel, hversu gegnheil manneskja hún var. Kristin trú var henni hugleikin alla tíð, og það er svo merkilegt, að þrátt fyrir að ýmsir þeirra sem gerðu hvað mest á hlut Pálu á lífsleiðinni, hafi margir hverjir verið kirkjunnar menn, í orði að minnsta kosti, þá missti hún aldrei trúna. Í huga hennar var skýr munur á trú og kirkju, og þótt kirkjunnar þjónar vísuðu henni frá sér, yfirgaf sá guð sem hún trúði á hana aldrei.

Ég vil að lokum senda Alla vini mínum og börnum Pálu, góðum vinum mínum sömuleiðis, þeim Elísabetu, Sólveigu og Bjarka, svo og börnum þeirra, einlægar samúðarkveðjur nú þegar þau sjá á eftir ástkærri eiginkonu, móður og ömmu langt fyrir aldur fram. En minningin um einstaka konu lifir.

Diddi (Sigurður Þór Salvarsson)

14.4.2019 20:25:40

Lesa grein
Við Pála deildum mörgum stundum saman í bernsku, svo flutti ég til Svíþjóðar og stofnaði fjölskyldu – fimm árum seinna þegar ég flutti aftur heim til Íslands, brotin eftir missi, tók Pála á móti mér með sínum kærleika – hún hjálpaði mér að byggja mig upp á ný – hlustaði og hlustaði þegar ég talaði stanslaust um minn missi. Með árunum treystust vinabönd okkar Pálu enn frekar. Ef það eru til tvíburasálir þá vorum við Pála það – í gegnum ævina hef ég oft hringt í hana á milli landa aðeins til að spyrja „hvað er að frétta?“ sem reyndist mjög oft vera á ögurstundu og fengið svarið: „Hvernig vissirðu það Gunna? Enn veit það enginn nema við!“. Þá hafði enn eitt áfallið dunið yfir – já, lífsverkefni Pálu og fjölskyldu hennar voru stór og mörg – of mörg.

Þeir sem kynntust Pálu, áttuðu sig fljótt á að hún var meiri manneskja en gengur og gerist, hún var svo miklu meira en „konan sem felldi biskupinn“, meira en „íslenska konan“ meira en „vinkona“ – hún var ein sú dýpsta og hreinasta mannvera sem ég hef kynnst. Hún gaf og gaf, kærleika, umhyggju, væntumþykju, ást og læknaði aðra. Í Danmörku var hún virtur ráðgjafi, hjálpaði og græddi önnur fórnarlömb – fyrirmenn sem lítilmagna – í augum Pálu var enginn yfir aðra hafinn – hún læknaði sálir - svo yfirtekur Krabbinn líkama hennar – hversu ósanngarnt er það!

Elsku Alli sem hefur verið eins og klettur í lífi Pálu, reynt að verja hana köldum brimsúg landans – tók loks af skarið og flutti með henni til Danmerkur, studdi við hana og hún við hann, nú starfar hann sem virtur gullsmíðameistari og steinasetjari í Danaveldi. Og börnin; Elísabet, Sólveig og Bjarki – það er sárara en hægt er að hugsa að núna mánuði eftir að þau jarðsungu Sigurð pabba sinn þá deyr mamma þeirra. Ég hef svo oft spurt mig „hversu mörgum erfiðum lífsverkefnum er einni fjölskyldu úthlutað?“

Ég átti þá von að Pála yrði sæmd Fálkaorðunni fyrir baráttu hennar í þágu kynöryggis og heilbrigðis hjá íslenskri þjóð. Barátta hennar markaði í raun upphaf íslensku #Metoo hreyfingarinnar - íslenska þjóðin á henni svo margt að þakka, þótt þjóðin hafi ekki alltaf stutt Pálu í að segja sannleikann í baráttu sinni við vinavætt valdakerfi.
Það er svo líkt Pálu að óska þess að vera jarðsett í báðum löndunum sínum; landinu sem hana ól og landinu sem bjargaði henni.

Ég er rík af reynslu, minningum og lærdómi og ég er þakklát fyrir að hafa átt Pálu sem vin og hafa fengið hlutdeild í fjölskyldu hennar. Elsku Alli, Elísabet, Sólveig og Bjarki – tíminn læknar ekki sár en góðar minningar geta hjálpað sári að gróa.

Já þú þurftir að flýja Íslandið okkar, ég skildi það enda var ég búin að horfa uppá ágang fólks á þig og fjölskylduna þína. En það var samt sárt að vita til þess að þú varðst að flýja og gerast flóttamaður í öðru landi – sem betur fer var vel tekið á móti þér þar, en þú áttir eftir langt bataferli og tókst svo að byggja þig svo upp að þú vannst.
Þín vinkona til eilífðar
Guðrún Alda Harðardóttir

14.4.2019 20:21:18

Lesa grein
Bréf til Pálu, litlu frænku minnar og stóru vinkonu minnar. Kæra Pála. Einu sinni varst þú litla frænkan mín en svo stækkaðir þú og stækkaðir og varðst stóra vinkonan mín. Það hefur verið mér dýrmætur vinskapur til margra ára. Það sem við höfum gert og upplifað saman væri efni í þykka bók. Mikið skemmtum við okkur þegar þú heimsóttir mig til Kölnar og við fórum saman í ferðalag til Frakklands. Mér eru minnistæðir margir göngutúrar sem við fórum, bæði hér heima og í Danmörku. Við gerðum létt grín að því að í hvert skipti sem ég heimsótti ykkur til Danmerkur var það á nýjan stað. En síðasta heimilið ykkar á búgarðinum við Helsinge virtist vera áfangastaður þar sem þið ætluðuð að dvelja lengi á. Þar varst þú í essinu þínu meðal náttúrnnar, dýranna og fjölskyldunnar. Mér þykir vænt um að hafa deilt þeirri reynslu með þér en allt of stutt.

Við deildum öllum tilfinningaskalanum og gátum alltaf talað um það sem okkur lá á hjarta við hvor aðra. Það var stutt í hláturinn og jákvæðnina sem einkenndi þig. Alveg til hins síðasta var sterkur baráttuvilji þinn til staðar og smitaði alla sem voru í kringum þig. Það var mjög lærdómsríkt ferli að fara með þér í gegnum baráttu þína gegn kynferðisofbeldi. Þá átt mikinn heiður skilinn fyrir þrautsegju þína þar.

Í seinni tíð áttum við sameiginlegan starfsferil, báðar að vinna með fólk með því markmiði að hjálpa því að fóta sig betur í lífinu. Við áttum margar góðar samræður um hvað við vorum að kljást við og studdum hvor aðra með reynslu okkar og þekkingu. Það er stutt síðan þú fórst á fullt með mér varðandi mál sem þú hafðir brennandi áhuga á og hjálpaðir mér með ráðum þínum og öflun upplýsinga. Það var gaman að finna hve mikilvægt það var fyrir þig að fá tengingu við það sem hugur þinn og hjarta hafði verið að fást við og ég held að það hafi gert þér gott um tíma.

Það er svo óraunverulegt að þú sért ekki þátttakandi í lífinu lengur. Það tómarúm sem þú skilur eftir mun aldrei fyllast. Það verður bara hægt að brúa það með góðum minningum um þig og allt það sem þú hefur gert í lífinu. Ég mun sakna þín óendanlega. Ég samhryggist öllum þínum ástvinum og veit að það verður sérlega erfitt fyrir þá að vera án þín. Hvíl í friði stóra vinkona og frænka.
Magnea Björg

Dánartilkynning Lesa grein

Elsku eiginkona, móðir, stjúpmóðir, amma og tengdamóðir okkar, Sigrún Pálína Ingvarsdóttir lést á Frederikssund spítala í Danmörku 2.apríl 2019.
Útför hennar mun fara fram miðvikudaginn 24. apríl 2019 kl. 15 í Vídalínskirkju í Garðabæ.
Kær kveðja
Alfred-Wolfgang Gunnarsson
Elísabet Ósk Sigurðardóttir
Bjarki Blöndal
Sólveig Hrönn Sigurðardóttir
Árni Reynir Alfredsson
Guðrún Lára Alfredsdóttir
Barnabörn og tengdabörn

Blóm eru vinsamlegast afþökkuð en við bendum á styrktarreikning 111183-2959
0114 - 05 - 062999 til styrktar við útför Pálu og ferðakostnað fjölskyldunnar til að virða ósk hennar að hvíla að hluta til í sinni móðurjörð á Íslandi.
Einnig er hægt að styrkja Stígamót í hennar nafni.
Byggir á Summit vefstýrikerfinu frá IGM ehf. www.igm.is