Þú ert hér

Fá sendar tilkynningar Loka

Með því að skrá netfang þitt hér getur þú fengið sendar á tölvupósti nýjustu greinar og kveðjur þegar þær eru skráðar á viðkomandi.

Hjálmar Vagn Hafsteinsson

f.d. 25.4.1971 - d.d. 9.7.2005

Hjálmar Vagn Hafsteinsson fæddist á Ísafirði 25. apríl 1971. Hann lést 9. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans eru hjónin Sigrún Guðbjörg Ásgeirsdóttir, f. á Ísafirði 5. maí 1951 og Hafsteinn Oddsson, f. á Siglufirði 7. ágúst 1947. Þau eru búsett í Sandgerði. Systur Hjálmars eru: 1) Sonja, f. 30. apríl 1973, maki Halldór Þorvaldsson, f. 25. ágúst 1971, börn þeirra eru Hafrún Ýr, f. 27. maí 1994, Stefanía Malen, f. 22. júlí 1998, og Aron Ingi, f. 6. febrúar 2000. 2) Ásgerður, f. 26. apríl 1978, dóttir hennar er Andrea Sól, f. 6. mars 1996. 3) Díana, f. 16. febrúar 1984, maki Aleksandrs Mavropulo, f. 10. febrúar 1977.

Kveðjur

Elsku fallegi Hjálmar.
Ég sakna þín svo sárt,hugsa til þín á hverjum degi.
Ég veit þú vakir yfir mér, elsku litlu frænku
Þín Andrea.
Elsku bróðir
Ég sakna þín endalaust mikið og hugsa til þín á hverjum degi.
Þín systir
Ásgerður

Minningargreinar

17.1.2008 23:48:31

Lesa grein
Ástkær bróðir minn og besti vinur, Hjálmar, er látinn. Hann er þó ekki alveg farinn því minningar okkar eru svo sterkar og lifa svo skært í hjarta mínu. Ég á svo erfitt með að sætta mig við þetta en það auðveldar mér daginn að hugsa að nú sé hann á góðum stað þar sem hann hefur það vonandi betra. Hann var svo lífsglaður og ævintýragjarn, mikill sögumaður og allt húsið ljómaði af gleði og hlátrasköllum þegar hann byrjaði á hetjusögum af sjálfum sér. Oft enduðu svo sögurnar á hasar-, hetju- og dáðarsögum af pabba, sem Hjálmar var svo yfir sig stoltur af. Hjálmar var dugnaðarforkur, alltaf tilbúinn að hjálpa hverjum sem var og oft var hann búinn að hlaða á sig verkefnum sem hann reyndi að vinna úr af kappi. Hann var rosalegur bílagaur en elskaði þó sjómennskuna meira, hann vissi allt um sjóinn, bátana, fiskana og gekk jafnvel svo langt að fara í Háskólann á Hólum, fiskeldisbraut, og læra enn þá meira um fiskana. Hann átti ógrynni af vinum alls staðar og öllum fannst hann dásamlegur. Hann var líka alltaf svo duglegur að monta sig af okkur systrunum við vini sína, sagðist vera svo ríkur af fallegum systrum sem hann væri svo stoltur af. Hann var ekki nema 34 ára en enginn trúði því án sannana að hann væri eldri en 25. Hann var síungur í anda og ætlaði sér marga stóra hluti í lífinu, hann ætlaði sér að ferðast út um allt og skoða allt milli himins og jarðar því hann var svo mikið náttúrubarn í sér. Hann var með annan fótinn hjá okkur Aleksandrs og ekki að ástæðulausu sem hann geymdi aukatannbursta hjá okkur mánuðum saman. Við vorum svo mikið saman síðustu árin og fljótlega var hann ekki bara partur af fjölskyldunni heldur var hann orðinn meiri vinur en ég hef nokkurn tímann kynnst. Jæja, elsku bróðir og vinur, ég mun sakna þín svo sárt og minningar okkar munu vaka að eilífu í hjarta mínu. Ég er óendanlega þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman. Ég vona að þú haldir áfram að passa litlu "siz" og vakir yfir mér. Sendu okkur styrk til að takast á við tómarúmið sem fyllir okkur og uppfylla það með hlýjum og yndislegum minningum um þig. Hafðu það sem allra best og góða ævintýraferð á þinni nýju braut, farðu bara varlega og vel með þig. Megi minning þín lifa skært en sál þín hvíla í friði. Ástar- og saknaðarkveðja,
þín litla "siz", Díana.

17.1.2008 23:47:45

Lesa grein
Yndislegi, brosmildi, hjartahlýi bróðir minn er dáinn. Ótal spurningar ásækja hugann en ég fæ engin svör. Ég trúi því ekki að ég eigi aldrei eftir að sitja í eldhúsinu hjá mömmu og pabba og hlæja og grínast með þér. Fyrstu minningarnar mínar eru frá þeim tíma sem þú varst orðinn "fiðrildi", alltaf einhvers staðar annars staðar en heima hjá þér en aðallega þó á Ísafirði hjá ömmu og afa. Þegar ég var orðin nógu stór fékk ég að fara með og ég man hvað þú varst þolinmóður að hjálpa mér að rata í bænum svo ég myndi nú ekki týnast, en þegar það var búið þá varstu rokinn því auðvitað áttir þú fjölmarga vini þar eins og alls staðar sem þú komst. Ég leit alltaf mjög upp til þín og var ákaflega stolt af stóra bróður mínum og ég vissi það að ég átti öruggt skjól bak við þig ef einhver var að stríða mér því þá varstu kominn til að verja litlu systur. Eins varstu mjög duglegur að láta fólk í kring um þig vita að þú værir stoltur af okkur systrunum og það er ákaflega gott að eiga í minningunni núna. Það var nánast alveg sama hvar maður kom, alltaf þekkti einhver þig og stolt sagði ég alltaf að þú værir bróðir minn. Þú varst alltaf boðinn og búinn að hjálpa öllum í kringum þig með allt milli himins og jarðar og ófá skiptin varstu að hjálpa vinum og vandamönnum að laga bíla eða hús og í því undir þú þér vel því hæfileikar þínir á þeim sviðum lágu í blóðinu. Þú varst alveg eins og pabbi, þúsundþjalasmiður með meiru og alveg frá því þú varst unglingur varstu eitthvað að stússa í bílaviðgerðum og oft gátum við gengið að ykkur feðgum vísum úti í skemmu, haugdrullugir upp fyrir haus á kafi ofan í húddi á bíl. Þegar ég var að leita að jólagjöf fyrir þig síðast rakst ég á könnu með áletruninni "heimsins besti bróðir" og þar með var það ákveðið, hún skildi vera með í pakkanum því þessi setning lýsti tilfinningum mínum til þín mjög vel. Þegar þú loksins komst heim af sjónum milli jóla og nýárs og opnaðir pakkana þína varstu svo ánægður með könnuna og oft seinna þegar þú sast og varst að drekka kaffi úr henni talaðirðu alltaf um það að þú værir svo ánægður með hana. Ég sá þig í síðasta skipti á föstudaginn þegar þú komst hress og kátur eins og þín var von og vísa, varst síðan rokinn nánast eins snögglega eins og þú birtist en þú kallaðir á mig fram í forstofu, faðmaðir mig og baðst mig að fara varlega með mig. Ég vildi óska þess að ég hefði aldrei sleppt þér. Elsku bróðir, góða nótt, guð geymi þig og gefi þér góða drauma.
Þín systir, Ásgerður.

17.1.2008 23:47:00

Lesa grein
Ég vildi óska þess að ég hefði knúsað þig á föstudaginn þegar ég sá þig síðast. Þú komst heim til mömmu og pabba, svo hress og kátur eins og þú varst alltaf, kysstir okkur og faðmaðir en varst svo rokinn með orðunum "sjáumst á morgun" en það varð aldrei. Ég get ekki trúað að ég sjái þig aldrei meir, sársaukinn er ólýsanlegur og mér finnst eins og ég eigi eftir að vakna upp og þá var þetta bara martröð. Þú varst stóri bróðir og þó að það væru bara tvö ár á milli okkar þá leit ég alltaf svo mikið upp til þín. Þegar við vorum lítil vildi ég alltaf fá að vera með þér og vinum þínum en eftir að þú byrjaðir í skóla varst þú nú ekkert sáttur við að hafa "litlu diddu" hangandi á eftir þér en ef eitthvað bjátaði á hjá mér þá varst þú kominn til að verja hana "litlu diddu" þína. Ég var mjög heppin að eiga góðan bróður þegar á þurfti að halda. Ferðirnar til ömmu og afa á Ísó voru ógleymanlegar. Þangað fengum við að fara á hverju sumri, komum helst ekki heim fyrr en skólinn byrjaði. Þar var sko margt hægt að bralla og ég held að prakkarastrikin sem þar voru framin séu efni í heila bók. En lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá þér, elsku bróðir. Ungur varðstu fyrir miklu áfalli sem þjakaði þig það sem eftir var. Fyrstu árin barstu þig vel en það er bara þannig að það sem þjakar, sligar mann að lokum og þannig var það með þig. Þó að þér liði oft á tíðum illa þá léstu aldrei bera á því. Þú varst svo hjartahlýr og yndislegur. Vildir allt fyrir alla gera, varst dögum saman að laga bíla eða hús fyrir vini og vandamenn eða bara það sem þurfti að gera. Haustið 2003 komstu norður í heimsókn til okkar einmitt til að gera við bílinn fyrir okkur. Þær viðgerðir enduðu með því að þú fórst að læra fiskeldi í Hólaskóla. Það var eitthvað sem átti vel við þig, búinn að vera sjómaður í mörg ár og farinn að læra að ala fisk í sjó og á landi. Þarna um veturinn kynntust börnin mín Hjálmari frænda almennilega. Þau dýrkuðu þig, enda ekki skrýtið því þú varst þeim svo góður. Ég er óendanlega þakklát fyrir þennan vetur. Það var alveg yndislegt að hafa átt allan þann tíma með þér. Því miður gekk ekki eins vel hjá þér eftir að þú fórst suður og ég vildi óska þess að hlutirnir hefðu þróast öðruvísi en þeir gerðu en því miður er eins og hlutirnir séu fyrirfram ákveðnir og við fáum ekki ráðið við neitt. Ég trúi því að þér sé ætlað stórt hlutverk. Ég á ekki nógu stór orð til að lýsa því hvað mér þykir ofboðslega vænt um þig og hvað ég sakna þín óendanlega mikið. Ég vona að þú sért búinn að finna ró í sálu þinni. Elsku bróðir minn, ég bið guð að geyma þig, varðveita þig og gefa þér frið.
Þín systir, Sonja.

Dánartilkynning Lesa grein

Elskulegur sonur okkar, bróðir og frændi varð bráðkvaddur að morgni laugardagsins 9.júlí 2005
Byggir á Summit vefstýrikerfinu frá IGM ehf. www.igm.is