Þú ert hér

Fá sendar tilkynningar Loka

Með því að skrá netfang þitt hér getur þú fengið sendar á tölvupósti nýjustu greinar og kveðjur þegar þær eru skráðar á viðkomandi.

Ólöf Óskarsdóttir

f.d. 26.5.1945 - d.d. 2.1.2004
Ólöf Óskarsdóttir fæddist í Sólgerði á Höfn í Hornafirði 26. maí árið 1945. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 2. janúar 2004. Foreldrar hennar voru Óskar Guðnason og Kristín Björnsdóttir, þau eru bæði látin. Ólöf var næst yngst í sex systkina hópi, hin eru Guðni, látinn, Lovísa, tvíburarnir Knútur og Birgir, báðir látnir og Margrét Kristín.
Ólöf giftist 10. apríl 1966 Óla Björgvinssyni, f. á Djúpavogi 16. apríl 1942 d. 22.01.2005. Þau eiga tvö börn, þau eru: Erlendur, f. 20. des. 1965, kvæntur Þóreyju Dögg Jónsdóttur, þau eiga þrjú börn; Tinnu Dögg, Elvar Frey og Ólöfu Rún og Kristín, f. 13. ágúst 1972, gift Ingólfi Guðna Einarssyni, þau eiga þrjú börn, Sævar Örn, Guðbjörgu Halldóru og Ólöfu Auði.

Útför Ólafar var gerð frá Djúpavogskirkju þ 10. janúar 2004.


Minningargreinar

7.1.2009 17:07:38

Lesa grein
Elsku amma.

Takk fyrir að vera alltaf svona góð. Við söknum þín en þú lifir í hjörtum okkar að eilífu.

Við vitum að Guð og englarnir passa þig.

Ég fel í forsjá þína,

Guð faðir, sálu mína,

því nú er komin nótt.

Um ljósið lát mig dreyma

og ljúfa engla geyma

öll börnin þín, svo blundi rótt.

(Matthías Jochumsson.)

Takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman.

Þín barnabörn


Sævar Örn og Guðbjörg Halldóra

2.1.2009 22:22:00

Lesa grein
Hún Ólöf amma var ótrúleg kona, þrátt fyrir mikil veikindi var hún alltaf manna hressust og duglegust. Ekki vildi hún heyra á það minnst að hætta að vinna, hún bara varð alltaf að vera að gera eitthvað, vinna, vera í skóla, hjálpa ömmubörnunum að læra, hjálpa Ingólfi og kristínu á kaffihorninu, sinna bústaðnum, passa okkur barnabörnin og margt fleira. Í eitthvert af síðustu skiptunum sem að við hittum hana ömmu og vorum með henni, þá var haldið lítið ættarmót heima, við hlustuðum á jólatónlist og kveiktum á kertum og við barnabörnin Tinna Dögg, Elvar Freyr, Ólöf Rún, Sævar Örn og Guðbjörg Halldóra sátum við eldhúsborðið og föndruðum með ömmu okkar sem vildi endilega sitja hjá okkur þrátt fyrir að hún hafi verið þreytt og vanmátta. Þetta var besti dagur sem við höfðum átt saman í langan tíma. Við munum öll geyma þennan dag í hugum okkar og við hugsum til þessa dags þegar söknuðurinn sækir á. En nú er amma okkar farin til guðs og er hætt að vera veik og finna til. Nú er hún orðin að engli sem passar okkur og er alltaf með okkur í huga og hjarta.
“Takk fyrir allt besta amma”

Vertu nú yfir og allt um kring
með eilifri blessun þinni
sitji guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.

Tinna Dögg, Elvar Freyr og Ólöf Rún

2.1.2009 22:18:08

Lesa grein
Tengdamóðir mín Ólöf Óskarsdóttir er nú látin aðeins 58 ára gömul.
Fyrir 12 árum kynntist ég þessari merkilegu konu. Ég fann það strax að hér var á ferð kona með sterkan persónuleika og afar góða mannkosti, margt kemur upp í hugann sem hægt er að setja á blað um hana Ólöfu, margar skemmtisögur, baráttusögur og dugnaðarsögur, en efst í huga mínum á þessari stundu er hvernig manneskja hún var.

Hún var eiginkonan sem var elskuleg, trú og trygg, stoð og stytta.

Hún var móðirin sem elskaði börnin sín afar heitt og hvatti þau áfram bæði í leik og starfi.

Hún var amman sem sýndi barnabörnum sínum hvernig ömmur eru bestar og tók í taumana þegar þolinmæði foreldranna þraut.

Hún var amman sem föndraði, söng, púslaði og sá til þess að yngsti fjölskyldumeðlimurinn hefði alltaf betur í fjölskylduspilum.

Hún var amman sem passaði þegar mamma og pabbi fóru til útlanda og gerði þá daga að samfelldri hátíð fyrir börnin.

Hún var tengdamóðirin sem hafði alltaf trú á mér og fékk mig til að trúa því að ég hefði staðið mig vel, þrátt fyrir lítinn árangur.

Hún var vinkonan sem með sinni lífsreynslu miðlað til mín góðum ráðum, studdi mig á erfiðum stundum og gladdist með mér á góðum stundum.

Hún var sumarbústaðareigandi og gróðurunnandi. Henni leið best í sumarbústaðnum sínum með eiginmanninum.

Hún var kona sem var vinmörg og leið vel í þeirra hópi við söng og leik.

Hún var baráttukona sem hélt reisn sinni fram á síðustu stundu og gafst aldrei upp.

Hún var svo sannarlega konan sem lék á krabbameinið með því að skilja það eftir í veikburða líkamanum, en hennar fallega sála sveif á vit nýrra og spennandi verkefna hjá Guði.

Hún var eiginkona, móðir, tengdamóðir, systir ,amma, og vinkona sem gaf okkur allar þessar fallegu og skemmtilegu minningar.

Hafi hún þökk fyrir allt og allt.

Þórey Dögg Jónsdóttir.

1.1.2009 23:49:53

Lesa grein
Mamma var mín stoð og stytta, hún var alltaf boðin og búin að hjálpa til, það var alveg sama hvað það var, ef hún gat þá gerði hún það og ef einhver gat það þá gat hún það. Þegar mamma varð ófrísk af mér átti hún ekki að fá að eiga mig vegna veikinda sinna en þá eins og svo oft sýndi hún styrk sinn þegar hún barði í borðið og sagði læknunum að þetta barn ætlaði hún að eiga sama hvað þeir segðu og ef þeir myndu ekki annast hana þá færi hún bara annað.

Mamma hafði líka skemmtilegan húmor og gat grínast með hlutina, þá ekkert síður að sjálfa sig, það eru margar skondnar sögur sem koma upp í huga minn þar sem mamma fór á kostum. Mamma gerði sér líka grein fyrir alvarleika lífsins enda fékk hún að kynnast erfiðleikum á sinni lífsleið. Hún bæði missti fólk sem henni var kært og svo var hún aldrei heil heilsu sjálf.

Hún hafði alltaf mikla samkennd með öðrum sem áttu erfitt, en aldrei vorkenndi hún sjálfri sér, heldur sá hún það góða sem lífið hafði uppá að bjóða.Gott dæmi um það er að þegar hún var orðin mikið veik í haust sagði hún við mig að hún væri svo heppin. Ég horfði á hana spurnaraugum og spáði í hvernig konan gæti séð heppni í aðstæðum sínum. Þá sagði hún við mig að hún væri svo heppin af því hún hefði lifað 58 yndisleg og hamingjurík ár, átt mann sem hún elskaði af öllu hjarta og hann elskaði hana jafn heitt, og hefði hún alltaf átt gott samband við börnin sín og barnabörn. Svo sagði hún, það er til fólk sem verður hundrað ára en finnur aldrei sanna hamingju. Svona var mamma, hún gat alltaf hughreyst mann í öllum aðstæðum.

Mamma var ekki bara mamma mín heldur líka besta vinkona mín, henni gat ég treyst fyrir öllu sem ég hugsaði eða gerði. Ef ég var í einhverjum vafa með eitthvað sem ég þurfti að framkvæma var gott að leita til mömmu, hún gat alltaf leiðbeint mér og hún var alltaf hreinskilin við mig og þótt mér líkaði ekki alltaf svarið sem ég fékk, þá hafði hún oftast rétt fyrir sér. Ég gæti skrifað mörg blöð um þessa frábæru konu sem hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Ég vona að hún viti hversu heitt ég elska hana og hversu sárt ég sakna hennar, það er mikill tómleiki í hjarta mínu, en minningin um hana lifir og ég gleymi þér aldrei, elsku góða mamma mín.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Þín elskandi dóttir,


Kristín.
(grein sem birt var í mbl)

Dánartilkynning Lesa grein

Ólöf Óskarsdóttir lést á Landspítalanum 2. janúar 2004. Útför hennar fór fram frá Djúpavogskirkju.
Byggir á Summit vefstýrikerfinu frá IGM ehf. www.igm.is