Þú ert hér

Þegar andlát ber að.

Við andlát ættingja og vina verða mikil þáttaskil í lífi fólks. Sorg og önnur viðbrögð við andláti eru mismunandi og einstaklingsbundin. Sorgin er eðlileg viðbrögð við missi ástvinar og henni fylgja margvíslegar og erfiðar tilfinningar sem menn bera með mismunandi hætti. En á sama tíma og sorgin ber að þurfa aðstandendur að sinna mörgum aðkallandi málum vegna útfarar og dauða ástvina sinna. Við hjá andlát.is viljum létta fólki þennan feril með því að hafa sem allra bestu upplýsingar á sem aðgengilegasta hátt hér á anlát.is.
Hér á eftir fara nokkrar þær upplýsingar sem helst þarf að hafa í huga þegar andlát ber að höndum.  


Andlát

Við andlát á heilbrigðisstofnun, eða utan hennar þegar aðstandendur eru ekki viðstaddir, er haft samband við þá eins fljótt og hægt er. Þegar um slys er að ræða annast prestur eða til þess kvaddur lögreglumaður tilkynningu til aðstandenda.

Þegar tilkynna þarf fjarstöddum ættingjum andlát er yfirleitt haft samband við viðkomandi sóknarprest og hann beðinn um að annast tilkynninguna.

Eftir andlátið er rétt að aðstandendur hafi samband við prest, forstöðumann trúfélags eða útfararstjóra sem leiðbeina fólki varðandi næstu skref.

Athuga þarf hvort hinn látni hafi skilið eftir sig sérstakar óskir varðandi útför. Óskir látins manns um útför ber að virða umfram óskir aðstandenda hans. Sérstaklega skal virða óskir sem byggja á trúarskilningi hins látna.
Samrýmist þær ekki trúarhugmyndum aðstandenda fer útförin oftast fram í samræmi við trúarhugmyndir hins látna en halda má minningarathöfn á grundvelli trúarskilnings aðstandenda.

Sérstaklega þarf að taka tillit til óska um bálför. Verði prestur eða annar aðili sem vitjar um sjúka og deyjandi þess áskynja að viðkomandi hafi skipt um skoðun varðandi útfararfyrirkomulag skal hann sjá til þess að gengið verði frá staðfestingu á vilja hins deyjandi, annað hvort með skriflegri yfirlýsingu eða með staðfestingu tilkvaddra votta.


Ný dögun, samtök um sorg og sorgarviðbrög
Sálgæsla á vef Þjóðkrikjunnar
Um dauðsfall og sorg á vef Rauða krossins


Dánarvottorð

Dánarvottorð er annars vegar tilkynning til Þjóðskrár um banamein og andlát viðkomandi og hins vegar tilkynning til sýslumanns um andlátið.
Læknir eða yfirlæknir á viðkomandi heilbrigðisstofnun, læknir hins látna eða héraðslæknir og stundum lögregla, allt eftir því hvernig andlát bar að, skoða lík og læknir ritar dánarvottorð.

  1. Aðstandandi hins látna fær afhent dánarvottorð á heilbrigðisstofnun eða hjá lækni sem skoðaði hinn látna. 
  2. Aðstandandi afhendir dánarvottorðið sýslumanni í því umdæmi sem hinn látni átti lögheimili á dánardægri eða þar sem dánarbúi verður skipt. 
  3. Sýslumaður afhendir aðstandanda staðfestingu á móttöku dánarvottorðs. Án slíkrar staðfestingar getur útför ekki farið fram. 
  4. Sýslumaður sendir dánarvottorð til Þjóðskrár.

 

Ef hinn látni lést í útlöndum er dánarvottorð eða samskonar erlent vottorð afhent sýslumanni í því umdæmi þar sem útför verður gerð eða þar sem dánarbúinu verður skipt.

Ef framvísun dánarvottorðs er ekki möguleg getur sýslumaður tekið við andlátstilkynningu ef henni fylgja einhver eftirtalinna sönnunargagna:

Embættisvottorð undirritað af einstaklingi sem er vegna opinberra starfa sinna bær um að votta andlát.

Lögregluskýrsla sem hefur verið gerð hér á landi og staðfestir andlát.

Dómur uppkveðinn hér á landi um lát horfins manns.

Dómúrskurður uppkveðinn hér á landi um að skipta megi arfi eftir horfinn mann sem hann væri látinn.

Samsvarandi erlent sönnunargagn.

Ef barn fæðist andvana þarf ekki að rita dánarvottorð, heilbrigðisstofnun tilkynnir það á sérstöku eyðublaði til Þjóðskrár.


Tilkynning andláts á vef sýslumanna


Lífsskrá / líffæragjöf

Lífsskrá er skjal sem geymir óskir fólks um meðferð við lífslok geti það ekki sjálft, vegna andlegs eða líkamlegs ástands, tekið þátt í ákvörðunum.

Í líffæragjöf felst að líffæri eða önnur lífræn efni eru fjarlægð úr látinni manneskju og grædd í sjúkling sem þarfnast þeirra.

Landlæknisembættið sér um að gefa út líffærakort sem menn geta fyllt út að eigin ósk. Æskilegt er að líffærakort séu geymd með öðrum persónuskilríkjum.

Ef hinn látni er líffæragjafi má strax eftir staðfestingu andláts taka líffæri sem hann hefur gefið leyfi fyrir að verði nýtt. Sé afstaða hans til líffæragjafar ekki kunn kemur í hlut nánustu vandamanna að taka ákvörðun.
Krufningar eru tvenns konar, krufning í læknisfræðilegum tilgangi og réttarkrufning.

Eftir líkskoðun má kryfja lík í læknisfræðilegum tilgangi hafi hinn látni veitt til þess heimild fyrir andlátið. Nánasti vandamaður getur einnig samþykkt krufningu, þyki sannað að hún sé ekki í andstöðu við vilja hins látna.

Réttarkrufning skal fara fram ef grunur leikur á að dauðsfallið megi rekja til refsiverðrar háttsemi eða þegar ekki er hægt að ákvarða dánarörsök. Samþykki nánasta aðstandenda þarf fyrir réttarkrufningu eða dómsúrskurð.

Óheimilt er að fjarlægja líffæri ef kryfja á hinn látna réttarkrufningu og ef talið er að brottnámið geti haft áhrif á niðurstöður krufningar.


Bæklingurinn Líffæragjafi á vef Landlæknis (pdf, 229 kb)
Upplýsingar um lífsskrá og eyðublað á vef Landlæknis


Flutningur látinna milli landshluta/landa

Ef flytja á hinn látna milli landshluta eða landa gilda sömu reglur um dánarvottorð (sjá dánarvottorð). Flestar útfararþjónustur sjá um flutning látinna milli landshluta.

Ef flytja á lík úr landi skal aðstandandi afhenda sýslumanni í því umdæmi þar sem maðurinn lést, dánarvottorðið. Sýslumaður afhendir þeim sem flytur líkið staðfest afrit dánarvottorðs og fylgir það líkinu.

Útfararþjónustur bjóða upp á að sjá um flutning milli landa og annað sem viðkemur flutningnum fyrir aðstandendur.


Vert að skoða


Lög og reglugerðir


Stuðst var við texta og krækjur af island.is  1. desember 2007


 

Byggir á Summit vefstýrikerfinu frá IGM ehf. www.igm.is