Þú ert hér

Útför skipulögð


Útför fer yfirleitt fram 5 til 10 dögum eftir andlát. Við skipulagningu útfarar er æskilegt að kanna hvort fyrir liggi óskir frá hinum látna um tilhögum útfararinnar. Ef þær liggja fyrir er rétt að athuga hvort ekki sé hægt að verða við þeim. Útfarir geta farið fram í kirkjum, kapellum, bænhúsum, samkomuhúsum trúfélaga, heimahúsum og ýmsum öðrum samkomustöðum. Jarðsetning eða dreifing dufts yfir víðerni er lagaleg skylda. Sérstök kirkjuleg eða önnur trúarleg athöfn á undan jarðsetningu er það ekki.


Staður og stund


Að mörgu er að hyggja varðandi útför hvort sem óskir hins látna liggja fyrir eða ekki. Samkvæmt venju kristinna fer útför yfirleitt fram fimm til tíu dögum eftir andlát. Meginreglan er sú að útför skuli alltaf fara fram samkvæmt siðum þess trúfélags sem hinn látni tilheyrir, eða með öðrum hætti ef ekki er um að ræða neina trúfélagsaðild.


Kirkjuleg afhöfn er ekki lagaleg skylda. Útfarir geta farið fram í kirkjum, kapellum, bænhúsum, samkomuhúsum trúfélaga, heimahúsum og ýmsum öðrum samkomustöðum, allt eftir trú, vilja og óskum hins látna og/eða aðstandenda.


Útför getur farið fram alla daga vikunnar, allt eftir því hvaða trúfélagi hinn látni tilheyrði, að því tilskyldu að umsjónarmenn og starfsfólk kirkjugarða og grafreita heimili það.
Yfirleitt snúa aðstandendur sér beint til prests eða forstöðumanns trúfélags eða ef hinn látni tilheyrir engu trúfélagi beint til útfararþjónustu og/eða kirkjugarða. Meðal þess sem ákveða þarf er:


 

 • Hvar hinn látni á að hvíla.
 • Hvernig kistan á að vera. 
 • Hvort um jarðarför er að ræða eða bálför.
 • Dagsetning kistulagningar og útfarar.
 • Tilkynningar í fjölmiðlum um andlát og útför.
 • Hver á að annast útförina og hvar hún á að fara fram.
 • Hvort kalla þurfi til organista og söngfólk, einleikara eða einsöngvara.
 • Hvort útför á að vera opinber eða í kyrrþey. 
 • Hvort bjóða á til erfidrykkju og hver annast hana.

Menningarheimar mætast, bæklingur Landlæknisembættis (pdf, 254 kb)

 

Útfararstofur


Útfararstofur eru starfræktar víða um land. Þjónusta þeirra er ætluð öllum, innan sem utan trúfélaga. Hægt er að leita til þeirra á hvaða tíma sólarhrings sem er.

Útfararstofur veita ráðleggingar og sjá um alla þætti útfarar í samráði við aðstandendur. Flestar þeirra eru með vefi á Netinu og margar hafa gefið út upplýsingabæklinga um starfsemi sína.

Listi dóms- og kirkjumálaráðuneytis yfir þá sem hafa leyfi til að starfrækja útfararþjónustu.


 

Kista og kistulagning


Látnir eru lagðir til hinstu hvílu í kistu og þurfa aðstandendur í samráði við útfararstjóra að ákveða umbúnað hins látna.


Útfararstofur geta veitt aðstandendum aðstoð við val á kistu og öðru nauðsynlegu. Sérstakar reglur gilda um kistur þegar bálför á að fara fram.


Á landsbyggðinni annast starfsfólk sjúkrastofnana, í nánu samstarfi við aðstandendur, undirbúning kistulagningar.


Við kistulagningu kveðja nánasta fjölskylda og vinir hinn látna. Kistulagning fer yfirleitt fram í kapellum, bænhúsum eða kapellum sjúkrahúsa og heilsustofnana.


Kistulagning kristinna fer yfirleitt fram tveimur til sex dögum eftir andlát. Misjafnt er eftir trúfélögum hvort og hvenær kistulagning þeirra sem ekki tilheyra þjóðkirkjunni fer fram. Þetta á einnig við um þá sem eru utan trúfélaga.


Hins látna er minnst í fáum orðum af presti, forstöðumanni trúfélags eða ættingja, sungið, beðnar bænir og leikin tónlist ef óskað er.

 

Annað varðandi útför

Tónlist – söngur –upplestur – sálmaskrá.


Tónlistarflutningur tíðkast við útfarir, bæði trúarlegur og veraldlegur og oft einnig upplestur. Ósjaldan hefur hinn látni gefið fyrirmæli eða látið upp óskir um hvaða ljóð eða bókarkafli skuli lesinn upp, hvaða sálmar sungnir og tónlist leikin.


Prestar, útfararstofur og forstöðumenn trúfélaga veita aðstoð varðandi val á tónlist og flytjendum ef óskað er. Í þjóðkirkjunni gildir sú meginregla að alltaf skuli nota lifandi tónlist við útfarir. Undantekningar eru þegar leikið er af geisladiskum á undan athöfn, eða vegna einhverra sérstakra aðstæðna.


Tónlistarfólk og aðrir sem gætu komið að útför:

 

 • Orgelleikari.
 • Einsöngvari. 
 • Sönghópur.
 • Einleikari.
 • Hljóðfæraleikarar.
 • Upplesari. 
 • Hljómdiskar.

 

Sálmaskrá


Þegar aðstandendur hafa, í samráði við prest, forstöðumann trúfélags og/eða útfararstofu, skipulagt útför kjósa flestir að láta útbúa sálmaskrá. Í skránni er að finna hvaða sálmar og tónlist verða flutt, hverjir flytja, hvaða prestur jarðsyngur og jafnvel þakkir og kveðja frá aðstandendum.

Aðstandendur geta ýmist látið útfararstofur sjá um frágang og prentun sálmaskrár eða séð sjálfir um verkið.

 

Blóm og kransar


Venja er að setja blómvönd, blómaskreytingu eða þjóðfána á kistu við útför. Ef moldað er í kirkju skal sjá til þess að brotið sé upp á fánann þannig að hann snerti ekki moldina. Fáninn er tekinn af kistunni áður hún er látin síga í gröfina.


Algengt er að fólk sendi blóm og kransa til minningar um hinn látna og eru þau látin standa við hlið kistu við athöfnina.


Stundum afþakka aðstandendur blóm og kransa, en benda fólki á að láta líknarfélög eða önnur félög njóta.

 

Kostnaður við útför og útfararstyrkur


Kostnaður við útför er misjafn eftir því hvaða leiðir eru valdar. Aðstandendur ættu að kynna sér allan kostnað vel við undirbúning útfarar.


Útfararstofur, starfsfólk á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum ásamt sóknarprestum í viðkomandi prestakalli, geta veitt upplýsingar um ýmsa kostnaðarliði.


Flestar útfararstofur hafa útbúið verðlista yfir þá þjónustu sem þær veita eða útvega. Þær bjóða einnig upp á að gera kostnaðaráætlun miðað við þær óskir sem fram eru settar varðandi útför. Nánari upplýsingar er að finna á vefjum útfararstofa.


Samkvæmt lögum er kostnaður vegna prestsþjónustu við kistulagningu og útför greiddur af kirkjugörðunum, sem og kostnaður vegna grafartöku.


Ef útséð er um að dánarbú hins látna geti ekki staðið undir útför getur aðstandandi sótt um útfararstyrk í því sveitarfélagi sem hann býr að uppfylltum vissum skilyrðum. Nánari upplýsingar um útfararstyrk er að finna í reglum sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð.


Mörg stéttarfélög veita útfararstyrk vegna látinna félagsmanna sinna að uppfylltum vissum skilyrðum. Nánari upplýsingar fást hjá félögunum.


Aðildarfélög ASÍ

Reglur sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð og félagslega heimaþjónustu


 

Lög og reglugerðir


Reglugerð um greiðslu kostnaðar vegna prestsþjónustu við útfarir, grafartöku og árlegt viðhald legstaða 
Reglugerð um kistur, duftker, greftrun og líkbrennslu 
Reglugerð um útfararþjónustu

Stuðst var við texta og krækjur af island.is  1. desember 2007

Byggir á Summit vefstýrikerfinu frá IGM ehf. www.igm.is